Verðbréfafyrirtækið Virðing falast eftir stórum eignarhluta í fjárfestabankanum Kviku. Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar og Ármann Þorvaldsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar og einn hluthafa í Virðingu hafa að undanförnu fundað með stærstu hluthöfum í fjárfestingabankanum og hafa áhuga á því að eignast stóran eignarhlut í Kviku. Frá þessu er greint í DV í dag.

Ef kaupin ganga eftir, sem ætti að skýrast á næstu vikum samkvæmt heimildum DV, þá gætu þau meðal annars verið fjármögnuð með aðkomu nýrra einkafjárfesta að Virðingu. MP banki og Straumur fjárfestingabanki sameinuðust undir nafninu Kvika fyrir fimmtán mánuðum.

Ekki staðfest hvaða fjárfestar hafi áhuga

Ekki fæst staðfest hvaða fjárfestar í hluthafahóp Kviku séu áhugasamir um að selja sinn hlut í bankanum. Stærsti hluthafi í Kviku er þó Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 9,9% hlut hyggst ekki selja í bankanum, en sá sjóður er jafnframt næststærsti hluthafi í Virðingu með ríflega 8,3% hlut.

Rekstur umfram væntingar

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær, þá gengur rekstur bankans umfram væntingar. Bankinn hagnaðist um milljarð eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins. Eigið fé bankans nam rúma 6 milljarða og eiginfjárhlutfall samstæðunnar hækkaði úr 18% upp í 20,5% nú.