Tryggingafélagið VÍS hagnaðist um 910 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanborið við 278 milljóna króna tap á sama tímabili árið 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Samsett hlutfall á tímabilinu nam 85,4% á fjórðungnum en var 94,6% á sama tímabili í fyrra.

Uppfærð afkomuspá gerir ráð fyrir að hagnaður ársins fyrir skatta verði 2,2 milljarðar króna og samsett hlutfall ársins verði 97,1%.

Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1,46 milljörðum króna samanborið við 829 milljónir króna á sama tímabili árið 2017. Iðgjöld tímabilsins jukust um 9,4% frá sama tímabili og í fyrra. Samsett hlutfall á tímabilinu var 96,9% en var 95,1% á sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins af fjárfestingastarfsemi hækkuðu um 106% og námu um 1,8 milljörðum króna.

Sterkur tryggingarekstur á þriðja ársfjórðungi

„Tryggingareksturinn var afar góður á þriðja ársfjórðungi og niðurstöðurnar sýna svart á hvítu hve sterkum tökum við höfum náð á grunnrekstri okkar. 12 mánaða samsett hlutfall hefur verið undir 100 prósentum síðan í byrjun árs 2017 sem er viðsnúningur frá árunum tveimur þar á undan þegar 12 mánaða samsetta hlutfallið var yfir 100 prósentum.

Við höfum lagt á það áherslu að í vel reknu tryggingafélagi verði tryggingareksturinn að standa undir sér. Það verður áfram grundvallarmarkmið og árangurinn það sem af er ári gefur góð fyrirheit um næstu misseri.

Fjórðungurinn var viðburðaríkur hjá félaginu. Hlutafé var lækkað með greiðslu á hlutum í Kviku banka. Við það lækkaði eiginfjárhlutfall félagsins, markaðsáhætta minnkaði og gjaldþolshlutfall hækkaði.

Við mótuðum einnig og kynntum nýja framtíðarsýn um að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki en sú framtíðarsýn verður leiðarljós í ákvörðunum okkar og forgangsröðun næstu misseri. Dæmi um þetta er endurskipulagning á þjónustuneti okkar sem kynnt var nýlega og stóraukin áhersla á að þjónusta viðskiptavini eftir stafrænum leiðum,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.

Opinn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn daginn eftir, fimmtudaginn 25. október, í húsnæði félagsins, Ármúla 3, kl. 8:30.

Á fundinum mun Helgi Bjarnason forstjóri kynna uppgjör félagsins og svara spurningum.