Stjórn VÍS hefur breytt tillögu sinni  um hvernig fara skuli með hagnað félagsins á reikningsárinu og greiðslu arðs.

Samkvæmt fyrri tillögu var lagt til að greiða arð sem nemur 5 milljörðum króna. Samkvæmt nýrri tillögu verður tillaga stjórnar til arðgreiðslna lækkuð í 2.067 milljónir króna, eða sem nemur 40% af upphaflegri tillögu. Arðgreiðslan nemur hagnaði síðasta árs, en fyrirtækið segir að ef hún myndi halda sig við upphaflega arðgreiðslutillögu þá gæti það skaðað orðspor fyrirtækisins.

„Greinargerð stjórnar: Stjórn VÍS sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar umræðu, þar sem bent var á að hluthafar félagsins hefðu til þess möguleika á aðalfundi að bera fram tillögu um lægri arð en stjórn lagði til. Það er hið eðlilega hluthafalýðræði.

Núverandi stjórn VÍS tók við í nóvember síðastliðnum. Fyrir stjórn lágu markmið um fjármagnsskipan félagsins þar sem leitast er við að hámarka arðsemi þeirra hátt í þúsund hluthafa félagsins og tryggja að félagið stæði sterkt að vígi. Arðgreiðslutillögur stjórnar VÍS voru vel innan þess ramma, enda er félagið sterkt fjárhagslega. Sú stefna sem stjórn vann eftir hefur legið fyrir frá ágúst 2015 og margoft komið fram í kynningarefni félagsins.

Viðskiptavinir og starfsmenn VÍS skipta félagið miklu. Stjórnin getur ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að fylgi hún núverandi arðgreiðslustefnu, þá geti það skaðað orðspor fyrirtækisins. Í því ljósi hefur stjórn ákveðið að leggja til aðgreiðsla sé miðuð við hagnað síðasta árs.

Stjórn VÍS telur mikilvægt að fram fari umræða innan félagsins, meðal hluthafa og út í samfélaginu um langtímastefnu varðandi ráðstöfun fjármuna sem ekki nýtast rekstri skráðra félaga á markaði. “

Fyrr í dag tilkynnti stjórn Sjóvá einnig að hún hefði lækkað arðgreiðslutillögu sína. Upphafleg tillaga Sjóvá nam 3,1 milljarði króna en eftir breytingu nemur hún 657 milljónum króna.