*

laugardagur, 23. febrúar 2019
Innlent 10. janúar 2018 16:36

VÍS og Skeljungur hækkuðu mest

Grænt var um að litast í kauphöllinni í dag, Úrvalsvísitalan hækkaði en Icelandair og HB Grandi voru einu sem lækkuðu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 1,15% í 3,5 milljarða viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1.698,53 stigum. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði einnig, eða um 0,12% í 5,6 milljarða viðskiptum og fór hún upp í 1.367,37 stig.

Einungis tvö fyrirtæki lækkuðu í verði í kauphöllinni í dag, og hvert tveggja tiltölulega lítið. Mest lækkaði gengi bréfa HB Granda, eða um 0,15% í 95,8 milljóna viðskiptum og fór gengið niður í 33,70 krónur. Gengi bréfa Icelandair Group lækkaði einnig, eða um 0,07% í 137 milljóna viðskiptum og fór gengið niður í 14,90 krónur.

Mest hækkun var á gengi bréfa VÍS, eða um 3,35% í 43 milljóna viðskiptum og fóru bréfin upp í 12,33 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Skeljungs eða um 3,32% í 113 milljón króna viðskiptum og fór gengi bréfanna upp í 7,00 krónur.

Mest viðskipti voru svo með bréf N1, sem hækkuðu um 1,63% í 513 milljón króna viðskiptum og náðu þau í lok viðskiptadagsw 122,00 krónum eftir 2,52% hækkun. Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Reita fasteignafélags eða fyrir 475 milljónir, nam hækkunin 1,69% og fóru bréfin upp í 90,30 krónur.