VÍS hefur selt um 1,6% af þeim rúmlega 8% hlut sem tryggingafélagið átti í Kviku banka. Markaðsvirði hinna seldu bréfa er tæpar 350 milljónir króna, en félagið á enn bréf í bankanum að andvirði rúmra 1,4 milljarða. Þetta kemur fram í nýjum hluthafalista bankans, sem Fréttablaðið greinir frá nú í morgun.

VÍS keypti í ársbyrjun 2017 tæpan 22% hlut í bankanum fyrir 1,66 milljarða króna, en síðasta sumar samþykkti svo hluthafafundur tillögu stjórnar um að lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa í formi bréfa í Kviku að andvirði 1,8 milljarða, sem jafngilti þá rúmum 12% hlut, og átti félagið því tæpan 10% hlut í bankanum eftir útgreiðsluna.

Kvika banki var sem kunnugt er skráður á aðalmarkað Kauphallarinnar í lok mars, eftir að hafa verið skráður á First North markaðinn áður. Á mánudaginn gaf bankinn út jákvæða afkomuviðvörun og í kjölfarið hækkuðu bréf bankans um næstum 9% .