Í ljós hefur komið að afkoma Vátryggingafélags Íslands á öðrum ársfjórðungi verður að óbreyttu verri en afkomuspá hafði gert ráð fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Stærsta frávikinu veldur aukinn tjónaþungi á tímabilinu og stórt brunatjón í Perlunni. Áður hafði verið gert grein fyrir áhrifum brunans í Miðhrauni á áætlunina.

Reiknað er með að afkoma á öðrum ársfjórðungi verði alls um 700 milljónum króna lakari fyrir skatta en afkomuspá hafði gert ráð fyrir, það er að hagnaður félagsins verði 92 milljónir króna fyrir skatta í stað 792 milljóna króna.

Mikill vöxtur hefur verið í iðgjöldum hjá félaginu og er samsett hlutfall undanfarinna 12 mánaða í lok júní áætlað 98%. Vænt samsett hlutfall fyrir árið 2018 er einnig 98%, þar af nema áhrif tveggja stórtjóna á öðrum ársfjórðungi um þremur prósentustigum á samsett hlutfall ársins.

Afar óvenjulegt er að tvö stórtjón af þessari stærðargráðu verði á sama árinu, hvað þá á sama fjórðungnum. Bæði tjónin eru af umfangi sem ekki hefur sést hjá VÍS síðan í óveðrinu í mars 2015 og brunanum í Skeifunni sumarið 2014.

Uppfærð 12 mánaða afkomuspá verður birt með uppgjöri annars ársfjórðungs þann 22. ágúst næstkomandi.