VÍS hefur í samræmi við nýja framtíðarsýn sína um að verða stafrænt þjónustufyrirtæki ákveðið að endurskipuleggja og einfalda fyrirkomulag þjónustu við viðskiptavini þannig að aukin áhersla verði lögð á stafrænar lausnir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Í kjölfarið verða þjónustuskrifstofur VÍS víðs vegar um landið sameinaðar í sex öflugar þjónustuskrifstofur á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjavík. Breytingarnar taka gildi 1. október næstkomandi.

Samskipti við viðskiptavini fara í síauknum mæli fram í gegnum net og síma og samkvæmt þjónustukönnunum kalla viðskiptavinir eftir aukinni þjónustu á þeim vettvangi. Áherslubreytingum í þjónustu er ætlað að svara þessu kalli. VÍS hefur undanfarið unnið að því að gera þjónustu við viðskiptavini aðgengilegri og einfaldari með stafrænum leiðum. Sem dæmi um það geta viðskiptavinir VÍS nú tilkynnt öll tjón á Mitt VÍS.

„Við mótuðum nýlega skýra framtíðarsýn um að VÍS verði stafrænt þjónustufyrirtæki. Breytingarnar sem við gerum núna eru í takt við þá sýn og er ætlað samræma þjónustuna okkar og laga hana enn betur að þörfum viðskiptavina sem vilja einföld, flækjulaus og skilvirk tryggingaviðskipti. Við sjáum skýr merki um að viðskiptavinir okkar vilja í síauknum mæli nota stafrænar leiðir til að eiga við okkur samskipti. Okkar trú er að sú eftirspurn fari vaxandi og kjarninn í okkar vegferð næstu misseri verður efla þjónustuna okkar á því sviði,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.