Fyrirtækið Háafell, sem gerði frummatsskýrslu á laxeldi í Ísafjarðardjúpi, hafnar ásökunum Landssambands veiðifélaga um meinta vanrækslu Skipulagsstofnunar, í máli þar sem stofnunin dró til baka útgefið álit um 6.800 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háafelli .

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá , þá sendi LV erindi til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra, þar sem að félagið krafðist þess að umhverfisráðuneytið myndi taka til rannsóknar málsmeðferð Skipulagsstofnunar.

Háafell heldur því fram í tilkynningu sinni að breyttar leikreglur í umsóknarferlinu hafi orðið til þess að félagið hafi þurft ráðrúm til að leggja fram viðbótargögn. Íslensk stjórnvöld höfðu fyrir niðurstöðu áhættumatsins skilgreint Ísafjarðardjúp sem fiskeldissvæði og Háafell hafi unnið frummatsskýrslu sína í góðri trú út frá þeirri staðreynd.

Háafell kveðst hafa haft samband við Skipulagsstofnun til að koma þessu á framfæri og stofnunin hafi brugðist við og dregið álit sitt til baka, svo að hafa mætti nýjustu gögn um stöðuna til hliðsjónar.

Að mati Háfells eru þær ályktanir sem LV dregur af störfum Skipulagsstofnunar ekki í samhengi við staðreyndir málsins og algjörlega úr lausu lofti gripnar.