Stjórnarskrárdómstóll Þýskalands hefur hafnað fyrirtöku á máli er varðar hvort magnbundin íhlutun evrópska seðlabankans á skuldabréfamarkaði standist stjórnarskrá landsins.

Hópur fræði- og stjórnmálamanna stendur að málsókninni  sem stjórnarskrárdómstóllinn hefur vísað til Evrópudómstólsins. Að því er fram kemur í frétt Reuters hefur Evrópudómstóllinn þegar lagt blessun sína að svipuðum aðgerðum seðlabankans með einungis litlum takmörkunum svo ólíklegt sé að málsóknin nái langt.

Gríðarleg skuldabréfakaup

Um er að ræða 2.300 milljarða evra skuldabréfakaupaverkefni sem nú þegar er í gangi og líklegt er að verði búið að vera í gangi í tvö ár þegar lokaniðurstaða dómstólsins kemur loks fram. Stefnt er að því að dregið verði úr skuldabréfakaupunum á næsta ári.

Margir Þjóðverjar segja að verkefnið feli í raun í sér að þeir séu að greiða upp skuldir skuldugri Evrópuríkja, sem muni á endanum falla á þýska skattgreiðendur.

Segja um ólöglegan fjárstuðning að ræða

Málsóknin heldur því fram að hér sé um ólöglegan fjárhagsstuðning að ræða og að þýski seðlabankinn, sem verið hefur stórtækastur í kaupunum, ætti því ekki að taka þátt.

„Það eru uppi efasemdir um hvort [verkefnið] sé í samræmi við bann við beinan fjárhagsstuðning,“ segir í yfirlýsingu stjórnarskrárdómssólsins. Evrópski seðlabankinn hefur löngum haldið því fram að reglurnar sem hann hefur sett sér taki tillit til takmarkana Evrópudómstólsins og verkefnið snúist um að ýta undir verðbólgu svo hún nái 2% markmiðum sínum.