Fjármálaeftirlitið hefur vísað máli Borgunar til héraðssaksóknara. Frá þessu greinir Ríkisútvarpið . Fjármálaeftirlitið telur að Borgun hafi vanrækt af ásetningi eða af hirðuleysi að kanna áreiðanleika upplýsinga um erlenda viðskiptavini sína.

Síðastliðinn föstudag gerði FME athugasemdir við verklag og eftirlit vegna viðskipta við nokkra af viðskiptavinum Borgunar á erlendum mörkuðum. Athugun FME snerist að því að kanna hvort að lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka væri fylgt.

Ólafur Hauksson héraðssaksóknari segir í samtali við Mbl.is að málið tengist umræddum meintum peningaþvættis- og gegnsæisbrotum. Hann tekur enn fremur fram að nú taki við greiningarvinna hjá embættinu og svo verði tekin ákvörðun um mögulega ákæru eða hvort eigi að fella málið frá.