Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segist ekki geta tekið undir það að ferðaþjónustan sé að taka náttúru landsins hernámi. Hins vegar sé ljóst að oft sé ekki nóg að veita fjármunum í uppbyggingu því ýmsir utanaðkomandi þættir tefji framkvæmdir eða komið í veg fyrir þær.

Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri segist horfa með skelfingu á þróun landnýtingar og að honum virðist sem „ferðaþjónustan sé að taka náttúru landsins hernámi og á vissan hátt að taka eignarupptöku á landi í einkaeigu, það er að segja perlum okkar, og landi í eigu þjóðarinnar". Þetta sagði Sveinn, sem lætur af störfum í sumarbyrjun, í viðtali í Sjónvarpinu. Enn fremur sagði hann að ferðaþjónustan væri að valda gríðarlegum náttúruspjöllum og að með því væri verið að „ræna eigum komandi kynslóða."
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að landgræðslustjóri hafi tekið ansi djúpt í árinni með þessum ummælum.

„Við viljum að sjálfsögðu og höfum komið af ábyrgð fram," segir Helga. „Við erum að vinna með stjórnvöldum og sveitarfélögum í því að tryggja þá takmörkuðu auðlind sem náttúra landsins er. Það er okkar hagur nákvæmlega eins og það er hagur allra þeirra sem í landinu búa. Við erum ekki að tjalda til einnar nætur og höfum sömu áhyggjur og aðrir af þeim svæðum sem eru hvað mest sótt í dag."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .