Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í október þriðja mánuðinn í röð, nú um 0,7%. Gildi nokkurra fyrri mánaða voru endurskoðuð uppávið.

Vísbendingar eru nú um að hagvöxtur aukist á ný snemma á næsta ári að mati Analytica, sem er óháð ráðgjafarfyrirtæki á sviði efnahags- og fjármála. Hagfræðingurinn Yngvi Harðarsson er stofnandi og framkvæmdastjóri fyrir.

Fimm af sex undirliðum hækka frá í september. Mesta framlag til hækkunar mælist í verðmæti fiskafla, innflutningi og væntingavísitölu Gallup en athygli vekur einnig jákvætt framlag fjölgunar ferðamanna, en aðrir þættir eru debetkortavelta og heimsvísitala hlutabréfa.

Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er enn sterk. Áfram eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum. Dregið hefur úr áhættu af völdum langvinnrar stjórnarkreppu hérlendis.

Byggja á vísbendingum um aðdraganda aukinnar framleiðslu

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Vísitölur leiðandi hagvísa hafa verið reiknaðar fyrir flest helstu iðnríki um áratugaskeið í þeim tilgangi að veita tímanlega vísbendingu um framleiðsluþróun.

Hugmyndin að baki vísitölunni er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum, en í október hækka fjórir af sex undirþáttum frá fyrra ári. Frá í september hækka fimm af sex undirþáttum.