Ýmsar vísbendingar benda til þess að uppgangur hafi verið á hagkerfinu á síðasta ársfjórðungi líkt og síðustu misseri. Þetta kemur fram í frétt á vef Arion banka.

Í frétt Arion segir að atvinnuleysi hafi dregist saman hraðar en áætlað var, og að það hafi verið 3,1%, miðað við að spár greiningaraðila hafi verið að það yrði 3,5% á tímabilinu. Þá jókst neysla ferðamanna í krónum.

Kortavelta Íslendinga hér á landi og erlendis hefur þá sömuleiðis aukist, og hátíðnivísbendingar benda ekki til þess að hér verði áframhaldandi samdráttur á íbúðafjárfestingu. Hagvöxtur á fyrstu 9 mánuðum ársins 2015 mældist 4,5% en í Hagspá Arion var því spáð að hann yrði 5,4% fyrir árið í heild.

Tölur um landsframleiðslu fjórða hluta 2015 verða birtar í mars, og á morgun birtir Seðlabankinn rit sitt Peningamál þar sem uppfærð efnahagsspá mun mögulega gefa frekari vísbendingar um hvernig niðurstaða síðasta árs var.