Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að bankinn hafi ekki vitað hverjum hann seldi 6% hlut sinn í Kaupþingi í október í fyrra.
Segir hann að hæsta tilboði hafi verið tekið, en fyrir söluna var bankinn sjötti stærsti eigandi Kaupþings. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í gær er nú ljóst að kaupendurnir voru voru vogunarsjóðirnir sem áttu fyrir kaupin umtalsverðan hlut í bankanum.

Fyrir söluna vissi bankinn svo ekki af því að Deutsche bank hefði fallist á að greiða Kaupþingi um 400 milljónir evra í sáttagreiðslu, eða sem samsvarar um 52 milljarða króna á núverandi gengi, að því er Morgunblaðið greinir frá. Þegar upplýst var svo um viðskiptin um þremur mánuðum seinna hækkaði verð bréfana um liðlega 30% á eftirmarkaði, en á sama tíma hafði Kaupþing sagt í sínum opinberu gögnm að ágreiningsmálin við Deutsche Bank biðu enn úrlausnar.

Már segir bréfin hafa verið seld í opnu söluferli fyrir milligöngu fjármálafyrirtækisins Morgan Stanley, og gátu allir sem uppfylltu almenn skilyrði gert kauptilboð. Spurður hins vegar hvort kaupþing hefði vitað af því að Seðlabankinn hyggðist selja svarar hann:

„Nei. Kaupþing hefur þar að auki enga aðkomu að viðskiptum með skuldabréf eða hlutabréf félagsins,“ segir Már.

Í svari frá forsvarsmönnum Kaupþings við spurningunni hvers vegna svo stór eigandi sem Seðlabankinn hafi ekki verið upplýstur um samninginn, var því svarað til að það væri stefna félagsins að tilkynna öllum hluthöfum á sama tíma um öll meiriháttar viðskipti. Það væri gert eins fljótt og mögulegt er, eftir að þau eru fullkláruð.