Seðlabanki Evrópu þarf að stöðva magnbundna íhlutun (e. quantitative easing)að mati Efnahagsráðs sérfræðinga í Berlin, en ráðið er oft í daglegu tali kallað „Vitringarnir“.

Efnahagsráðið gaf á dögnum út árlega skýrslu þar sem það gagnrýnir Seðlabanka Evrópu fyrir lágvaxtastefnu og skuldabréfakaup sem að mati ráðsins sáir fræjum óstöðugleika í álfunni. Ráðið leggur til að bankinn dragi þegar úr skuldabréfakaupunum til að hindra ójafnvægi sem sé þegar að myndast.

Ráðið segir að stefna bankans að halda vöxtum lágum of lengi hvetji of mikið til áhættusækni og því sé mikilvægt að slíkt ástand ríki ekki of lengi.

Viðvörun „vitringanna“ kemur á sama tíma og búist er við því að Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu muni tilkynna um lækkun stýrivaxta enn frekar og auka við skuldabréfakaup, en fundur bankaráðs verður í í byrjun desember.