Þrátt fyrir Seðlabanki Evrópu ítreki að hann útiloki enga möguleika virðist sem svo að bankinn sé að reyna að draga úr væntingum um að stýrivextir verði hækkaðir í október. Í mánaðarlegu fréttabréfi bankans, sem kom út í gær, kemur meðal annars fram að þrátt fyrir að hagvísar sýni aukinn þrýsting á stöðugt verðlag geri óvissan um ástandið á fjármálamörkuðum að verkum að enn sé of snemmt að draga ályktanir um áhrif þess á peningamálastefnuna.

Fram kemur í fréttabréfinu að sérfræðingar þurfi meira tíma til þess að greina hagtölur áður en að hægt verði draga ályktanir um áhrif lausafjárþurrðarinnar á fjármálamörkuðum á mótun peningamálastefnunnar. Svo virðist að bankinn sé sammála þeim sem telja að langt sé þangað til að öldurótið á mörkuðum muni slota, en æ fleiri þungavigtarmenn í fjármálaheiminum hafa lýst yfir þeirri skoðun. Á fundi með blaðamönnum í Helsinki í gær lýsti finnski seðlabankastjórinn Erkki Liikanen, en hann situr jafnframt í stjórn evrópska seðlabankans, því yfir að ljóst væri að sá tími yrði ekki talinn í vikum heldur mánuðum. Hann sagði jafnframt að endurkoma stöðugleika á markaðnum ylli á hversu hratt menn áttuðu sig á umfangi og eðli vandans.

Á sama tíma og sérfræðingar sannmælast í auknum mæli um að það muni taka lengri tíma að lægja öldurnar en talið var í fyrstu bendir margt til þess að verðbólga á evrusvæðinu fari yfir tveggja prósenta viðmiðunarmörk Seðlabanka Evrópu. Það myndi setja stjórnendur bankans í töluverðan vanda ef áframhald yrði á núverandi aðstæðum, en bankinn skýrði ákvörðun sína um að halda stýrivöxtum óbreyttum á síðasta vaxtaákvörðunarfundi meðal annars með því að vísa til lausafjárþurrðarinnar á mörkuðum. Fram kemur í umfjöllun Dow Jones fréttastofunnar um þróun verðlags á evrusvæðinu að flestir hagfræðingar fjármálastofnanna geri ráð fyrir því að verðbólga verði yfir viðmiðunarmörkum frá og með þessum mánuði fram á næsta ár. Rætist það kemst bankinn ekki hjá því að hækka vexti og er því tímaspursmál hvenær það gerist.

Hins vegar vegur það á móti að lausafjárþurrðin á fjármálamörkuðum hefur hækkað fjármagnskostnað sem og það getur dregið úr eftirspurn og þar með slegið á þensluna.. Þar af leiðandi verður erfitt fyrir Seðlabanka Evrópu að meta á hvaða leið hagkerfi evrusvæðisins er fyrr en að stöðugleiki kemst á markaðinn.