Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 1,39% í 6,3 milljarða króna veltu dagsins, og náði hún 1.721,07 stigum við lok viðskiptadags.

Aðalvísitala Skuldabréfa hækkaði einnig eða um 0,11% í 7,6 milljarða viðskiptum og stendur hún nú í 1.263,94 stigum.

Nýherji eina sem lækkaði

Nýherji var eina félagið sem lækkaði í verði í kauphöllinni í dag, eða um 0,67% í 89 milljóna viðskiptum og er hvert bréf félagsins nú verðlagt á 29,75 krónur.

Gengi bréfa Fjarskipta, móðurfélags Vodafone hækkaði langmest í kauphöllinni í dag, eða um 5,47% í 398 milljón króna viðskiptum en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag, gengu kaup félagsins á stórum hluta af starfsemi 365 í gegn í dag. Gengi bréfa félagsins stendur nú í 56,90 krónum.

Gengi bréfa Haga hækkaði næst mest í dag eða um 3,64% í tæplega 666 milljóna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 48,40 krónur.

Tæplega milljarðs velta með bréf Reita

Mest velta var með bréf Reita fasteignafélags, eða fyrir 990 milljónir króna og hækkuðu þau um 1,38% í viðskiptunum í 95,20 krónur.

Næst mest velta var með bréf Eikar, eða fyrir 848,5 milljarða, og hækkaði gengi bréfa félagsins um 2,39% í dag og nemur gengið þeirra nú 11,57 krónum.

Einnig var mikil velta með bréf þriðja fasteignafélagsins, Regins, eða fyrir 752 milljónir króna og hækkuðu bréf félagsins um 1,80% upp í 28,25 krónur hvert bréf.