Vodafone og Greenqloud hafa náð samningum um innleiðinga á Qstack, hugbúnaðarlausn Greenqloud til að stýra sýndar- og netþjónaumhverfi Vodafone.

Vodafone rekur núna netþjónaumhverfi, sem spannar fjóra tölvusali en með Qstack býst fyrirtækið við að geta samnýtt betur þann búnað sem rekin er í þessum gagnaverum, og náð fram hagræðingu í rekstri þeirra.

Fannar Örn Þorbjörnsson, forstöðumaður viðskiptakerfa hjá Vodafone á Íslandi segir að „Qstack bætist við okkar núverandi VMware umhverfi og eykur þar með sveigjanleika okkar í að nota mismunandi skýjalausnir. Qstack býður okkur einnig þann kost að stýra netþjónaumhverfi án sýndarvæðingar, en það mun gera okkur kleift að nýta mun betur annan vélbúnað sem við höfum fjárfest í.“

„Ég er mjög ánægður að geta nú boðið Vodafone velkomið í hóp okkar ánægðu viðskiptavina. Það að eitt af stærstu fjarskiptafyrirtækjunum á Íslandi innleiði Qstack er viðurkenning á þeim hagræðingar möguleikum sem Qstack býður upp á, samhliða stórauknum möguleikum á nýjum leiðum í viðskipta og vöruþróun” segir Jón Þorgrímur Stefánsson, forstjóri Greenqloud.