Þó ekki hafi eiginlegt mál verið höfðað gegn íslenska ríkinu hefur vogunarsjóðunum Autonomy Capital LP, Autonomy Master Fund Limited, GAM Trading (NR.37) og Autonomy Iceland Two S.á.r.l. verið heimilað að leggja fram spurningar fyrir dómkvadda matsmenn.

Í gær kvað Hæstiréttur upp um þetta, en þeim var einungis heimilað að bera upp fimm af þeim ellefu spurningum sem þeir höfðu lagt upp með að fá að spyrja.

Markmið spurninganna er að leggja grunn að kröfugerð sinni og málatilbúnaði í komandi dómsmáli. Þær spurningar sem út af stóðu þóttu tilgangslausar til sönnunarfærslu í málinu.

Málatilbúnaðurinn snýst um að lög um gjaldeyrishöft og meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum feli í sér skerðingu á stjórnarskrávörðum réttindum þeirra. Ekki hafi verið sýnt fram á að almannaþörf krefji eða aðrar ástæður réttlæti lagasetninguna.

Vilja sjóðirnir með spurningum sínum afla sönnunar um atvik og efnahagslegar staðreyndir að baki væntanlegum kröfum þeirra á hendur ríkisins. Mun því reyna á það hvort ákvæði laganna standist stjórnarskrá.