*

sunnudagur, 24. júní 2018
Innlent 6. september 2017 22:24

Vogunarsjóður veðjar á Ísland

Einn stærsti og elsti vogunarsjóður Evrópu, Lansdowne Partners, hyggst stofna sjóð sem fjárfest verður á Íslandi og Írlandi.

Snorri Páll Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Lansdowne Partners, einn stærsti og elsti vogunarsjóður Evrópu, hyggst stofna sjóð fyrir árslok sem fjárfest verður á Íslandi og Írlandi. Sjóðurinn mun hallast að langtímastöðum en ekki skortstöðum. Lansdowne, sem er með höfuðstöðvar í London, er með um 19 milljarða Bandaríkjadala í stýringu og á bandaríski bankinn Morgan Stanley 19% hlut í félaginu. Financial News greinir frá.

„Þemurnar eru svo sterkar að við erum tilbúnir að taka óvarnar stöður í þeim,“ segir sjóðsstjórinn David Craigen, sem stýrir 700 milljóna dala sjóði sem fjárfestir í evrópskum hlutabréfum. „Það eru ótrúleg tækifæri á Írlandi og Íslandi og þau hafa klassískan efnahagsbata-vinkil sem óhætt er að segja að sé erfitt að finna í öðrum heimshlutum.“

Ísland og Írland urðu bæði fyrir miklum hremmingum í fjármálakreppunni árið 2008, en löndin tróna á toppi lista Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um kostnaðarsömustu bankahrun síðustu áratuga. Löndin urðu því auðveld bráð vogunarsjóða, sem margir voru með skortstöður á Íslandi og Írlandi fyrir hrun. Lansdowne var með eina stærstu skortstöðu í Anglo Irish Bank í september árið 2008, en var ekki með skortstöðu í hlutabréfum íslensku bankanna.

Craigen segir nokkrar ástæður fyrir því að Ísland og Írland séu góðir fjárfestingarkostir um þessar mundir. Bæði löndin hafa gengið í gegnum umfangsmikið hrun og öflugan efnahagsbata undanfarin átta ár og búa við mikla verðmætasköpun. Hagvöxtur á Íslandi var 7,2% á síðasta ári og 5,2% á Írlandi, sem er langt umfram hagvöxt evrusvæðisins. Hann segir löndin tvö hafa góða lýðfræðilega eiginleika og er hlutdeild sérhæfðs vinnuafls mikil á vinnumörkuðum þeirra. Fasteignamarkaður Írlands er í blóma og er landið að laða til sín beina erlenda fjárfestingu í stórum stíl. Á Íslandi er engin markaðsbjögun til staðar vegna örvunaraðgerða Seðlabanka Evrópu.

Eftir að gjaldeyrishöftunum var aflétt síðastliðinn mars hafa vogunarsjóðir herjað á Ísland á nýjan leik. Til að mynda keyptu Goldman Sachs, Och-Ziff Capital Management, Taconic Capital og Attestor Capital um 30% hlut í Arion banka á innan við viku eftir afnám hafta. Þá hafa vogunarsjóðir á borð við Wellington Management og Eaton Vance Management sést á hluthafalistum íslenskra félaga á hlutabréfamarkaði, til dæmis fasteignafélögunum, VÍS, N1 og Högum.