Volkswagen segist ætla að innkalla 8,5 milljónir bíla í Evrópu vegna svindlbúnaðar sem fyrirtækið setti í bifreiðar sínar til að blekkja mengunarmælingar.

Þýski bílaframleiðandinn greindi frá því að hann hyggðist innkalla 2,4 milljónir bíla í heimalandinu, en ljóst er að flest lönd Evrópu líta málið alvarlegum augum. Til að mynda gerði ítalska lögreglan húsleit á skrifstofum Volkswagen í Verona og á skrifstofum Lamborghini i Bologna.

Volkswagen gaf ekki upp nein smáatriði varðandi fjöldainnköllunina en sagðist myndu hafa beint samband við viðskiptavini sína. Þá sagðist fyrirtækið vera að leita að lausnum til að gera við bifreiðarnar.

Volkswagen hefur sett til hliðar 6,5 milljarða evra til að eiga við skandalinn en sérfræðingar telja að kosnaður fyrirtækisins verði mun hærri. Hlutabréf í Volkswagen hafa fallið um 20% frá því að svindlið kom upp.