Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen kynnti í dag áætlun um að lagfæra allt að ellefu milljónir bifreiða vegna útblásturshneykslisins. Nýr forstjóri fyrirtækisins, Matthias Müller, sagði að fyrirtækið myndi láta bifreiðaeigendur vita á næstu dögum hvernig og hvenær þeir þyrftu að koma með bíla sína í yfirferð. Samkvæmt frétt Reuters er talið að þetta geti kostað fyrirtækið um 6,5 milljarða dala, eða um 825 milljarða króna.

Volkswagen hefur viðurkennt að hafa svindlað á útblástursprófum á díselbílum fyrirtækisins í Bandaríkjunum og hefur samgönguráðherra Þýskalands hefur sagt að hið sama hafi gerst í Evrópu, þar sem Volkswagen selur um 40% af öllum sínum bílum.

Frá því að fréttir bárust fyrst af hneykslinu hefur gengi hlutabréfa Volkswagen fallið um þriðjung og hafa margir áhyggjur af því að málið kynni að skaða þýska hagkerfið.