„Ég nenni eiginlega ekki að hlusta á þetta lengur,“ segir viðskiptafræðingurinn Ásthildur Otharsdóttir, sem nýverið tók við sem stjórnarformaður Marel. Þegar Viðskiptablaðið spurði hana út í lög um lágmarkskynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja eða kynjakvótann eins og hann er oftast kallaður þá viðurkennir Ásthildur að hún hafi í upphafi umræðunnar ekki verið hlynnt lagasetningunni. Nú er hún handviss um að þetta hafi verið nauðsynlegt.

„Ég vona hins vegar að þetta verði einungis tímabundið úrræði og að við getum afnumið lögin sem fyrst. Nú þegar hefur náðst mikill árangur. Mér er hins vegar hugleikið hvernig við getum aukið hlut kvenna í framkvæmdastjórnum íslenskra fyrirtækja. Þar finnst mér við ekki hafa verið að ná nógu góðum árangri,“ segir hún en bætir við að sér finnist þetta ráðgáta. Ásthildur telur þó að ástæðan fyrir þessu sé samspil þröngsýni og gamals vana.

„Fyrirtæki þurfa markvisst að byggja upp mannauðinn sinn og það getur vel verið að það þurfi aðrar áherslur varðandi konur en karla,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .