„Ég setti þær álögur á yngsta son minn að skýra hann Jóhannes Felix þannig að hann er kallaður Jói Fel,“ segir Jóhannes Felixson, betur þekktur sem bakarinn Jói Fel. Fram kemur í viðtali Viðskiptablaðsins við hann að bakarinn er með mörg járn í eldinum, þar á meðal er hann að leggja lokahönd á grillbók sem hann telur að verði með stærri matreiðslubókum sem gefnar hafi verið út á Íslandi.

Jói Fel viðurkennir að hann sjái fyrir sér að vörumerkið lifi lengur en hann sjálfur og vonar að einn daginn geti hann stigið til hliðar þó svo að vörumerkið Jói Fel lifi áfram.

„Mér dettur helst í hug Paul Newman poppið. Paul Newman heitinn er auðvitað ekki að búa það til sjálfur,“ segir Jói Fel og bendir á að talsverðan tíma hafi tekið að byggja vörumerkið upp.

„Vörumerkið Jói Fel varð ekki til á einni nóttu heldur kom það til hægt og rólega. Það skiptir miklu máli. Ég er því búinn að hafa mörg ár til að átta mig á því hvernig ég vil haga þessu vörumerki. Það er heldur ekki gott þegar vörumerki verða til á einni nóttu, þá ertu farinn að reyna að standa undir einhverju sem þú í fyrsta lagi mótaðir ekki sjálfur og í öðru lagi átt erfitt með að viðhalda. Það breytir því þó ekki að þegar þú mótar vörumerki eins og Jóa Fel á löngum tíma þá setur það mikla pressu á sjálfan mig að viðhalda því og gera vel.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .