Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að ákvörðun um að ganga ekki að kaupunum á Wow air hafi verið tekin í gærkvöldi. „Þegar menn horfðu á stöðuna í gærkvöldi var það sameiginleg ákvörðun að slíta þessu ferli. Þessir fyrirvarar voru ekki í höfn og voru ekki líkur á að þeir myndu klárast fyrir morgundaginn. Það var niðurstaðan að vera ekki að gefa þessu meiri tíma.“

Í gærkvöldi lágu fyrir niðurstöður áreiðanleikakönnunar Deloitte og Logos á Wow air sem voru eitt af fyrirvörum sem gerðir voru við kaupin. Meðal annarra fyrirvara voru samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þá lá afstaða skuldabréfaeigenda Wow air ekki fyrir.

„Við mátum að miðað við að upphaflega áætlun, þegar við skrifuðum undir kaupsamning, að áhættan væri meiri en við lögðum upp með auk þess að þessir fyrirvarar voru ekki að klárast,“ segir Bogi en gengið var frá kaupsamningi 4. nóvember.

Hann vonast til að Wow air verði áfram í rekstri og veiti Icelandair samkeppni. „Ég vona það, það heldur okkur á tánum,“ segir Bogi.

Icelandair horfir inn á við

Bogi segir næsti skref hjá Icelandair vera að horfa inn á við og horfa til innri vaxtar, til að mynda ljúka við leiðakerfi næsta árs. Spurður hvort frekari hagræðing sé fram undan hjá Icelandair segir Bogi félagið stöðugt vera að leita leiða til að hagræða samhliða því að auka einingatekjur.