Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sat fyrir svörum á blaðamannafundi á þriðjudagskvöld þegar næstu skref til losunar fjármagnshafta voru kynnt í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Hann svaraði fyrirspurn úr sal á þann veg að hann vonaðist til að höftin yrðu afnumin að fullu á næsta ári.

„Staðan varðandi það að fara í fullt afnám verður metin snemma næsta árs. Það getur vel verið að það verði full losun á næsta ári og ég sannarlega vona það. En það er ekkert víst,“ sagði Már. Ekki væri tímabært að ráð­ast í fullt afnám á þessum tímapunkti.

„Við verðum að passa okkur á að detta ekki í sömu pyttina og við duttum í fyrir síðustu fjármálakreppu, að sjá ekki áhættuna þegar hún var að byggjast upp og bregðast ekki við henni.“

Ekki áhyggjur af genginu

Í samtali við Viðskiptablaðið hafði Már ekki áhyggjur af áhrifum nýrra laga á gengi íslensku krónunnar.

„Gengið getur bæði styrkst og veikst út af þessu, það verður bara að koma í ljós. Auðvitað segja sumir að svona losun auki tiltrú á hagkerfið og þá fara menn að reyna að þrýsta sér meira inn. En hitt er ljóst og það er undirstrikað í greinargerð með frumvarpinu að gengið verður auðvitað hreyfanlegt í þessu ferli og verður að vera það,“ segir Már.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók undir það að frekari losun hafta gæti aukið tiltrú á íslenskt hagkerfi. „Ég tel að þetta sé mikið trú­ verðugleikamál fyrir okkur að fylgja eftir þeirri áætlun sem við höfum starfað eftir og stíga nú þetta skref í framhaldi af aflandskrónuútboðinu. Það er þó ekki hægt að gera lítið úr því að við erum enn með umtalsverðar fjárhæðir inni í aflandskrónuhlutanum, en það breytir því ekki að okkur hefur tekist á síð­ astliðnu einu og hálfu ári að gjörbreyta stöðunni varðandi höftin,“ sagði Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .