Miðað við miðgildi svara í nýjustu könnun Seðlabanka Íslands vænta markaðsaðilar þess að vextir bankans verði lækkaðir um 0,25 prósentur á fyrri hluta þessa árs.

Það samsvarar því að meginvextir lækki úr 5% í 4,75% en hækki aftur í 5% í byrjun næsta árs og haldist þá óbreyttir út spátímann. Þetta eru heldur lægri vextir en þeir væntu í samsvarandi könnun sem framkvæmd var í nóvember.

Þegar könnunin var framkvæmd taldi um 41% svarenda taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt sem er 15 prósentum hærra hlutfall en í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt lækkaði um 7 prósentur, í 53%. Þá fækkaði þeim sem töldu taumhaldið of laust eða alltof laust einnig úr 13% í 6%.

Seðlabanki Íslands framkvæmdi könnunina dagana 30 janúar til 1 febrúar. Leitað var til 30 aðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða og annara verðbréfafyrirtækja og fengust svör frá 17 aðilum.