Lúðvík Þorgeirsson, framkvæmdastjóri aðalstjórnar Fram, segir það einlæga von sína að samningar takið við borgina og félagið flytji upp í Úlfarsárdal. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá voru drög að nýjum samningi Reykjavíkurborgar við Fram kynntur á síðasta fundi borgarráðs.

„Staðan er sú að við erum í þessum töluðu orðum að fara yfir samninginn og munum svara borginni á næstu dögum," segir Lúðvík. „Í stórum dráttum er málið þannig að við erum með samning frá 2008. Síðan kom hrunið, sem olli því að ákveðið var að minnka byggðina upp frá. Málið er því nokkuð snúið vegna þess að í okkar huga snýst þetta líka um að geta verið með arðsaman rekstur — að Fram verði sjálfbært íþróttafélag.

Þegar borgin kom fyrst að máli við okkur var gert ráð fyrir 25 þúsund manna byggð í hverfinu en núna er gert ráð fyrir 9 þúsund manna byggð. Þannig að þetta er gríðarleg breyting fyrir okkur. Á móti kemur að um 70% af iðkendum í yngri flokkum Fram eru upp frá."

Spurður hvort hann reikni með því að félagið muni flytja alfarið upp í Úlfarsárdal og Grafarholt svarar Lúðvík: "Það ætla ég rétt að vona. Þar er okkar einlæga von að við náum að klára þetta og við komumst upp eftir. Við erum búin að vera að reka félagið á tveimur stöðum, sem er alveg ferlegt. Auðvitað gerum við okkur vonir um að hverfið verði fjölmennara en skipulagið í dag gerir ráð fyrir. Það er þegar búið að byggja upp innviði og því hægt að byggja miklu stærra hverfi þarna."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .