Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri Eykon Energy segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með ákvörðun Orkustofnunar í dag um að afturkalla olíuleitarleyfi félagsins á Drekasvæðinu.

„Við teljum að þetta hefði átt að fara öðruvísi hjá Orkustofnun. Við munum að sjálfsögðu leita þess að hnekkja ákvörðuninni,“ segir Gunnlaugur í samtali við Viðskiptablaðið.

Aðspurður hvað honum finnist um það að stofnunin telji sig ekki hafa heimild til þess að gefa félaginu frest til að finna nýja samstarfsfélaga líkt og það hafi farið fram á eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segist Gunnlaugur vera ósammála því.

„Við teljum að stofnunin hafi ekki heimild til að svifta okkur leyfinu, við teljum að stofnunin hafi skyldu til þess að beita vægari úrræðum, áður en leyfið er tekið af aðila.“

Ósammála forsendum ákvörðunarinnar

Félagið er ósátt við ákvörðun stofnunarinnar og ósammála forsendum að baki ákvörðuninni að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Eykon telur ákvörðunina ekki reista á lögmætum grunni, þar sem ákvæða stjórnsýslulaga og meginreglna stjórnsýsluréttar hafi ekki verið gætt.

Ákvörðun Orkustofnunar um afturköllun leyfisins er afar íþyngjandi og að mati Eykons hefði Orkustofnun átt að beita vægari úrræðum áður en til afturköllunar kom.

Ákvörðunin er Eykoni mikil vonbrigði en félagið hyggst bera hana undir Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála við fyrsta tækifæri, til þess að fá henni hnekkt.“