Ríkiskaup hafa endurnýjað samning við Vörð tryggingar um lögbundnar ábyrgðartryggingar ökutækja í eigu ríkisins. Ríkiskaup auglýsti útboð í tryggingarnar á Evrópska efnahagssvæðinu í febrúar á þessu ári og átti Vörður hagstæðasta tilboðið. Samningurinn nær til tveggja ára. Hann er með möguleika á framlengingu um eitt ár í tvígang og getur hann því náð til samtals fjögurra ára. Kemur þetta fram í tilkynningu frá félaginu.

Þetta er annar samningurinn á þessu ári sem Vörður gerir við Ríkiskaup um tryggingar á eignum ríkissjóðs. Hinn felur í sér brunatryggingar á öllum fasteignum í eigu ríkisins næstu þrjú árin. Vörður hefur tryggt fasteignir ríkisins síðan árið 2008 en ökutækin síðastliðin fjögur ár.

Samningur Ríkiskaupa við Vörð nær yfir öll skráningarskyld ökutæki í eigu ríkissjóðs frá og með undirritun og bætast þau ökutæki við samninginn sem ríkissjóður eignast út samningstímann. Ríkissjóður á í dag 1.335 ökutæki. Samningurinn felur í sér ábyrgðartryggingu ökutækja í eigu ríkisins, slysatryggingu ökumanna og bílrúðutryggingu.