Björgólfur Jóhannsson þekkir íslenska ferðaþjónustu betur en margir enda var hann forstjóri Icelandair Group í tæp ellefu ár. Til þess að ná utan um vöxt íslenskra ferðaþjónustu þarf að líta nokkur ár aftur í tímann. Algengt er að miða við eldgosið sem varð í Eyjafjallajökli í apríl árið 2010.

„Grunnurinn að þessum vexti var lagður árið 2010 þegar við fórum af stað með kynningarátakið Inspired by Iceland,“ segir Björgólfur í viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út á dögunum. „Á þessum tíma vorum við í miðri kreppu og allt í sárum. Lítið var til af peningum en ríkið var framsýnt og lagði krónu á móti hverri krónu sem fyrirtækin lögðu í átakið. Þarna var ákveðinn grunnur lagður að sókn í ferðaþjónustu og sérstök áhersla á að fá ferðamenn hingað allt árið um kring. Það er ekkert launungarmál að gosið hjálpaði okkur mikið.“

Á fyrstu hrunárunum fækkaði ferðamönnum. Árið 2008 komu um 502 þúsund erlendir ferðamenn til landsins. Árið 2009 fækkaði þeim í rétt 493 þúsund og árið 2010 fækkaði þeim aftur lítillega en það ár komu tæplega 489 þúsund ferðamann til landsins. Síðan hófst vöxturinn. Árið 2011 komu 566 þúsund ferðamenn til landsins, sem var 16% aukning frá árinu á undan. Næstu árin eftir þetta var stöðugur vöxtur eða um og yfir 20% ári. Hlutfallsleg aukning náði hámarki árið 2016 en þá komu tæplega 1,8 milljónir ferðamanna til landsins eða 39% fleiri en árið á undan. Í fyrra var talan komin í 2,2 milljónir, sem var 24% aukning frá 2016. Á þessu ári hefur hægt mjög á vextinum og er nú útlit fyrir að hlutfallsleg aukning verði í kringum 6% á milli áranna 2017 og 2018.

Óheilbrigður vöxtur

„Ég held að svona mikill vöxtur í svona langan tíma sé ekki heilbrigður. Það hefur reynt á ýmsa innviði og auðvitað fyrirtækin líka . Ég get tekið sem dæmi vegakerfið, sem er langt frá því að vera nægilega gott, sem og aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli, sem er ekki góð. Þá hafa ýmsir ferðamannastaðir í náttúru landsins látið á sjá en við höfum enn tækifæri til að laga það. Í stuttu máli þá vorum við alls ekki undirbúin fyrir þennan mikla vöxt. Vissulega var þessi mikli vöxtur góður fyrir efnahag þjóðarinnar en hann var of hraður og það er að koma niður á okkur núna.

Ef maður lítur í baksýnisspegillinn, sem er auðvitað mjög þægilegt, þá hefðum við átt að fara í alvöru stefnumótun og setja okkur markmið í uppbyggingu ferðaþjónustunnar strax á árunum 2010 eða 2011. Strax þá áttum við að leggja áherslu á uppbyggingu við mest sóttu ferðamannastaðina en í staðinn þá misstum við þá niður og erum núna að reyna að bregðast við. Þó að vöxturinn núna sé í kringum 6% þá verðum við að átta okkur á því að það er nokkuð yfir vexti í ferðaþjónustu á heimsvísu. Sex prósenta vöxtur í fyrirtækjarekstri er til dæmis mjög heilbrigður. Þar vill maður ekki fara mikið yfir tíu prósent. Hjá Icelandair fór vöxturinn mest í 25% á ári og það reyndi gríðarlega mikið á innviði félagsins.“

Góð skýrsla en illa nýtt

Spurður hver beri ábyrgð á því að ekki hafi verið farið stefnumótun í ferðaþjónustu í tæka tíð svarar Björgólfur: „Til dæmis ég. Auðvitað eiga stjórnvöld að leiða vagninn en atvinnulífið á líka að koma að málum. Icelandair, Bílaleiga Akureyrar, Bláa lónið og Isavia gerðu heiðarlega tilraun fyrir rúmum fimm árum þegar fyrirtækin fjármögnuðu vinnu ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group að stefnumótun í ferðaþjónustu. Vinnan var á mjög breiðum grunni og út kom mjög góð skýrsla, þar sem meðal annars var talað um náttúrupassann í fyrsta skiptið hér á landi. Þarna var ákveðinn grunnur lagður að endanlegri stefnu í ferðaþjónustu en því miður hefðu stjórnvöld mátt vinna betur með þessa stefnu.“

Sumir hafa gagnrýnt að ferðaþjónustan, sem í dag skapar nánast jafnmiklar gjaldeyristekjur og stóriðjan og sjávarútvegurinn til samans, skuli ekki eiga sitt eigið ráðuneyti. Björgólfur segist ekki endilega vera á þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að stofna sérstakt ferðamálaráðuneyti.

„Ég er ekki viss um að það sé einhver heildarlausn. Þetta er spurning um skipulag. Ferðaþjónustan sem atvinnugrein er mjög víðfeðm, hún snertir mjög marga málaflokka. Ég held að skrefið sem var tekið þegar Stjórnstöð ferðamála var sett á laggirnar hafi verið mjög gott. Í henni eiga sæti fjórir ráðherrar ásamt fjórum fulltrúum frá Samtökum ferðaþjónustunnar og tveimur fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Vegna þess hversu ferðaþjónustan teygir anga sína víða í atvinnulífinu, hefur marga snertifleti, þá held ég að þetta sé mjög góður vettvangur og í ákveðnum skilningi ígildi sérstaks ferðamálaráðuneytis. Stjórnstöðin fjallar um mál sem eru mjög brýn og hefur gert mjög marga hluti sem hafa bætt ferðaþjónustuna. Með tilkomu Stjórnstöðvarinnar hefur verið ráðist í mjög mikilvægar framkvæmdir. Í heildina hefur hún leitt um 60 mál til lykta.“

Samkvæmt samkomulagi frá árinu 2015 á Stjórnstöð ferðamála að ljúka sínum verkefnum árið 2020.

„Ég held að það ætti að skoða það mjög alvarlega að framlengja samkomulagið, jafnvel til frambúðar. Þessi samráðsvettvangur hefur orðið til þess að mál, sem annars hefðu verið að velkjast á milli ráðuneyta, hafa komist hratt í framkvæmd.“

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst [email protected] .