Vörusala hjá Basko ehf. á árinu 2015 nam 9,57 milljörðum króna og jókst um 21% á milli ára. EBITDA hagnaður Basko nam 141 milljón á árinu og stóð í stað. Basko ehf. fer meðal annars með eignarhald á Rekstrarfélagi Tíu ellefu ehf. dótturfélagi þess Drangaskerfi ehf., sem rekur Dunkin Donuts, Iceland og Imtext ehf., sem er vöruhús samstæðunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Basko er þriðji stærsti aðilinn í sölu matvara á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Á liðnu ári áttu sér miklar breytingar hjá fyrirtækinu, til að mynda opnaði Dunkin Donuts, skrifstofur fyrirtækisins voru færðar um set o.fl.

Vörusala 10-11 nam rúmum 6,5 milljörðum og jókst um 25% milli ára. Vörusala Iceland nam tæpum 2,9 milljörðum og jókst um 8,2% milli ára. Vörusala Dunkin Donuts nam 153 milljónum króna frá því að félagið hóf starfsemi í ágúst á síðasta ári.

Haft er eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Basko, að hann telur mikla og góða uppbyggingu hafa átt sér stað hjá samstæðunni að undanförnu.

Við opnuðum fyrsta Dunkin Donuts kaffihúsið á Íslandi í ágústmánuði 2015 með eftirminnilegum hætti. Höfuðstöðvar okkar og vöruhús fluttum við á einn stað og erum nú í Klettagörðum 6 en þar er einnig miðlæg starfsemi Dunkin. Eins opnuðum við tvær verslanir undir nafninu Háskólabúðin, fluttum Inspired By Iceland verslun okkar o.fl.  Framangreindir atburðir lituðu mjög afkomu ársins ásamt því sem kjarasamningshækkanir höfðu mikil áhrif á kostnað samstæðunnar á liðnu ári,“ er haft eftir Árna Pétri í fréttatilkynningunni.