Í júní 2018 voru fluttar út vörur fyrir tæpa 50,7 milljarða króna og inn fyrir 71,1 milljarð króna fob (75,9 milljarða króna cif). Vöruviðskiptin í júní, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 20,5 milljarða króna, samanborið við 14,9 milljarða í júní í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hagstofunni nú í morgun.

Á fyrri helmingi ársins voru fluttar út vörur fyrir 287 milljarða króna en inn fyrir 370,4 milljarða (395,4 milljarða króna cif). Halli á vöruviðskiptum við útlönd nam því 83,4 milljörðum króna reiknað á fob verðmæti, samanborið við 86,3 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Útflutningurinn á fyrri helmingi ársins var 43 milljörðum, eða 17,6%, hærri en á sama tímabili í fyrra, og innflutningur var 40 milljörðum, eða 12,1% hærri. Í tilkynningunni segir að aukinn útflutning megi rekja til hærra álverðs og meiri útflutnings sjávarafurða, vegna sjómannaverkfallsins í upphafi síðasta árs. Aukinn innflutning megi fyrst og fremst rekja til hækkandi eldsneytisverðs og fjárfestingu í flugvélum.