Í júlímánuði voru fluttar út vörur fyrir 51,9 milljarða króna og inn fyrir 54,5 milljarða króna. Vöruskiptin í júlí voru því óhagstæð um 2,6 milljarða króna. Í júlí 2014 voru vöruskiptin hagstæð um 2,2 milljarða króna á gengi hvors árs. Kemur þetta fram í tölum Hagstofunnar.

Fyrstu sjö mánuði ársins 2015 voru fluttar út vörur fyrir tæpa 385,2 milljarða króna en inn fyrir rúma 391,5 milljarða króna. Halli var því á vöruskiptum við útlönd sem nam 6,4 milljörðum króna, en á sama tíma árið áður voru vöruskiptin óhagstæð um 7,6 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 1,2 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður.

Fyrstu sjö mánuði ársins 2015 var verðmæti vöruútflutnings 58,7 milljörðum eða 18,0% hærra, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 54,2% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 24,8% hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna útflutnings á áli. Sjávarafurðir voru 41,6% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 19,3% hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna útflutnings á fiskimjöli.

Fyrstu sjö mánuði ársins 2015 var verðmæti vöruinnflutnings 57,4 milljörðum eða 17,2% hærra, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður, aðallega vegna hrá- og rekstrarvöru og flugvéla.