Hafrannsóknarstofnun hefur ekki getað treyst á fjármagn til nauðsynlegra rannsókna á borð við kortlagningu hafsbotnsins.

„Þessar rannsóknir eru ekkert á árlegum fjárlögum heldur háðar aukafjármagni. Ef Hafró fær aukafjárveitingu þá er hún notuð í ýmsar rannsóknir eins og þessar,“ segir Steinunn Hilma Ólafsdóttir, sem hefur sinnt rannsóknum Hafrannsóknarstofnunar á lífríkinu á hafsbotninum umhverfis landið.

„Við fórum níu daga í ár og í fyrra vorum við í tvær vikur, en þar áður höfðum við ekki farið síðan 2012. Það kom pása í þetta,“ segir Steinunn Hilma.

Fyrir þessa pásu höfðu verið farnar rannsóknarferðir af þessu tagi fjögur ár í röð, frá 2009 til 2012. „Og það var að hluta í tengslum við Evrópustyrk sem við fengum.“

Samstarfsmaður hennar, Stefán Áki Ragnarsson, stýrði þá rannsóknum við Ísland í tengslum við Evrópuverkefni (http://eu-fp7-coralfish.net/), sem veitti styrk á móts við Hafrannsóknarstofnun í þessar rannsóknir.

„Verkefnið sjálft, sem Stefán Áki stýrði, snerist einkum um að rannsaka samspil fiska og kóralsvæða, meðal annars var atferli þeirra skoðað og hvernig þeir nýttu sér kóralsvæðin. En ég var í leiðinni að kanna útbreiðslu og ástand kórala, einkum til að meta þörf fyrir verndun þeirra.“

Utanaðkomandi pressa
Árið 2016 var síðan ákveðið að hefja þessar rannsóknir á ný eftir að þær höfðu legið niðri í þrjú ár.

„Þá var komin meiri utanaðkomandi pressa um að skoða ekki bara kóralasvæði heldur líka svampasvæði og önnur viðkvæm búsvæði. Við erum að skoða ástand svæða, tegundasamsetningu og meta hvort við þurfum að huga sérstaklega að verndun ákveðinna svæða meðal annars með ábyrgar fiskveiðar í huga.“

Þessi aukni þrýstingur stafar ekki síst af því að nú er farið að gera meiri kröfur um sjálfbærnivottun veiðanna, meðal annars MSC-vottun.

„Það er orðið eitt af skilyrðunum við ákveðnar veiðar að við sýnum fram á að gengið sé um auðlindina á ábyrgan hátt og að það sé verið að fylgjast með þessum hlutum, skrá þessa hluti.“

Hún segir að íslensk útgerðarfyrirtæki séu sum hver byrjuð að skrá það sjálf ef kórall eða svampur kemur í veiðarfæri hjá þeim. Bæði Brim og HB Grandi eru eru byrjuð að skrá slíkar upplýsingar, enda gerð krafa um það af hálfu vottunarfyrirtækja. Þetta hefur verið gert í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun og Steinunn Hilma segist reikna með að slíkt samstarf muni aukast.

„Eftirspurn eftir þessari vitneskju er að koma úr ýmsum áttum núna. Alþjóðahafrannsóknaráðið er meðal annars að taka saman vitneskju um útbreiðslu viðkvæmra tegunda, eins og kórala og svampa. Það hafa því verið kórala- og svampasvæðin sem hafa verið áhersluþættir í rannsóknum okkar en við, eins og mörg lönd í kringum okkur erum að kortleggja almennt hvernig búsvæði er að finna, hvaða lífríki er á þessum svæðum og afla grunnþekkingar um þau svo hægt sé að taka afstöðu til nýtingar á auðlindinni.“

Kóralasvæðin fyrst könnuð
Steinunn Hilma segir að upphafið að þessum rannsóknum megi reyndar rekja aftur til ársins 2003 þegar var forveri hennar, Sigmar Arnar Steingrímsson, fór að taka saman upplýsingar um kórala hér við land: „Hann fór hafði samband við sjómenn og sendi út spurningalista til að afla vitneskju um það hvar kóralsvæði væri helst að finna til að geta sett út rannsóknasvæði, því þú ferð ekkert bara út og gerir eitthvað. Maður verður að hafa einhverja hugmynd um hvar á að leita.“

Það voru sem sagt rannsóknir á kórölum hér við land sem urðu upphafið að þeirri almennu kortlagningu hafsbotsins og búsvæðanna hér í kringum landið sem nú er komin af stað. Þetta segir hún vera gríðarstórt verkefni fyrir sérfræðinga til næstu áratuga.

„Við þurfum á hverjum tímapunkti að meta hvar upplýsinganna er þörf til að ákveða hvert við eigum að beina rannsóknunum. Við getum ekki kortlagt allt nema á tugum ára kannski,“ segir Steinunn Hilma. „Þó auðvitað væri best að kortleggja allt saman. Og það verður vonandi gert smám saman.“

Helstu kóralsvæðin við Ísland eru orðin nokkuð þekkt og búið er að loka sumum þeirra, þeim stærstu. Skemmdir af völdum veiðarfæra segir hún algenga sjón á þessum svæðum.

Skemmdir eftir veiðar sjást víða
„Skemmdir sjást sérstaklega uppi á suðurkantinum sem er okkar helsta togslóð. Þar hafa verið áður fyrr hringlaga kóralrif en megnið af þeim er horfið myndi ég halda. Þau rif sem við höfum skoðað á þessum slóðum eru svo til ónýt. Við sjáum líka för eftir toghlera og slitrur úr veiðarfærum.“

Hún segir að kóralaskemmdir á borð við þær sem fréttir hafa borist af frá Suðurhöfum sjáist samt ekki hér við land, að minnsta kosti ekki enn sem komið er.

„Hérna erum við með kóral sem er á mun meira dýpi og því hafa hitastigsbreytingar ekki enn haft áhrif. Kóralrif við Ísland eru helst á milli 200 og 600 metra dýpi. Kórallinn getur farið dýpra líka, og hann getur farið grynnra. Súrnun sjávar er enn sem komið er meiri í kalda sjónum fyrir norðan okkur, en kórallinn er ekki þar heldur í hlýja sjónum fyrir sunnan. Ef súrnunin hins vegar færir sig hingað í djúpa sjóinn fyrir sunnan okkur, þá gæti hann orðið fyrir áhrifum af því í framtíðinni.“

Kóralsvæðin eru mikilvæg, ekki bara vegna fegurðar þeirra heldur sækir í þau svo mikið af öðrum lífverum.

„Þau eru iðandi af lífi og það stafar bæði af því að þetta eru þrívíddarbúsvæði sem þau mynda á botninum sem er oft nokkuð sléttur annars. Þau eru nokkurra metra há jafnvel og þar skapast aðstæður fyrir aðrar lífverur, bæði skjól og önnur skilyrði. Þar að auki brjóta þau upp strauma og þar með næringarflæðið og annað sem getur komið næringu til þeirra dýra sem eru á svæðinu.“

[email protected]