Í skýrslu Greiningar Íslandsbanka um ferðaþjónustuna, sem kom út í síðustu viku, segir að erlendir ferðamenn nýti innanlandsflugið lítið. „Til marks um það hefur ferðamönnum hér á landi fjölgað um 175% frá árinu 2010 en á sama tíma hefur farþegum í innanlandsflugi fækkað um 6%," segir í skýrslunni. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir að það sé ekki alls kostar rétt að ferðamenn nýti sér innanlandsflugið lítið.

„Langstærsti hluti okkar farþega hefur verið Íslendingar og það sem greinandinn hefur ekki áttað sig á er að hlutdeild erlendra ferðamanna hefur verið að vaxa í takti við fjölgun erlendra ferðamanna til landsins," segir Árni. „Hlutdeild erlendra ferðamanna í innanlandsflugi var í kringum 5% fyrir áratug síðan en er núna um 20%. Þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra þannig að erlendir ferðamenn eru því að nýta sér þetta flug í auknum mæli."

Sveiflast í takt við hagvöxt

Árni segir að sögulega haldist fjöldi farþega í innanlandsflugi í hendur í við hagvöxt og þá sérstaklega þróun hagvaxtar á landsbyggðinni.

„Innanlandsflug sveiflast í takt við efnahagssveifluna í landinu. Við sjáum þessa þróun allt aftur til ársins 1970. Þegar óðaverðbólga var í landinu þá fækkaði farþegum, í kjölfarið á netbólunni fækkaði þeim og síðan aftur á árunum eftir hrun. Þegar uppgangurinn var sem mestur fyrir austan í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins við Reyðarfjörð þá fjölgaði farþegum verulega mikið. Þá var almennt mikil uppsveifla í landinu og hagvöxtur mikill og fjöldi farþega tvöfaldaðist. Þetta hefur síðan aftur verið að gerast síðustu ár og þá sérstaklega síðustu tvö ár."

Árni segir að á milli áranna 2015 og 2016 hafi farþegum í innanlandsflugi fjölgað um 7%.

„Þetta þykir okkur mikil aukning því meðaltalsfjölgun farþegar í innanlandsflugi á síðustu 30 árum hefur kannski verið í kringum 3%. Þannig að þetta er tvöfalt það. Staða innanlandsflugs er að mörgu leyti sterk í dag. Styrkleikarnir liggja í meðal annars í því að við vorum að fjárfesta í nýjum flugvélum sem styttir flugtímann og eykur þægindi um borð, " segir hann og vísar til kaupa Flugfélags Íslands á Bombardier flugvélum sem leystu Fokker-vélarnar af hólmi. „Þessi fjárfesting endurspeglar trú okkar á því að innanlandsflugið eigi framtíð fyrir sér."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .