Guðbrandur Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, sem sagði af sér sem formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna í gær , segir að þrátt fyrir góðan gang í viðræðunum hafi VR ekki viljað reyna til þrautar að ná samkomulagi.

Segir hann félagið, sem VS rennur inn í 1. apríl næstkomandi, frekar hafa horft til samstöðu með öðrum verkalýðsfélögum, að því er Morgunblaðið greinir frá. Vísar hann þar í samflotið með Eflingu, Verkalýðsfélagi Akraness og Verkalýðs- og sjómannafélags Grindavíkur.

„Ég er að upplifa eitthvað nýtt þessa dagana. Ég hef ekki vanist því að landssambandið og stærsta félagið fari sitt í hvora áttina í samningsgerð,“ segir Guðbrandur, en eins og fram kom í fréttum í gær var Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR þá þegar kjörinn formaður LÍV í hans stað.

„Ég álít að þetta bandalag fjórmenninganna sé það sterkt að það sé á þessum tímapunkti ekki hægt að rjúfa það. Ég tel að það sem var á borðinu í síðustu viku sé leið til lausnar. Það að vilja ekki fara þá leið sýnir að menn eru tilbúnir að beita öðrum vinnubrögðum til að ná því fram sem þeir telja ásættanlegt.“

Jafnframt hafa borist fréttir um að Framsýn á Húsavík hafi tekið samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu vegna hugmynda SA um breytingar á vinnutíma sem túlka má sem vilja til að vera í samfloti með bandalagi fjórmenninganna.

Á miðnætti hefjast verkföll ríflega 2.000 félaga í stéttarfélögunum VR og Eflingu, á 40 hótelum og hópbifreiðafyrirtækjum.