Stórir bankar á borð við Bank of America, UBS og HSBC hafa orðið talsvert bjartsýnni í spám sínum fyrir Bandarískan efnahag, eftir sigur Donald Trumps. Fjölmiðlar vestanhafs telja það enga tilviljun, enda muni Trumponomics ýta undir hagvöxt og uppsveiflu á fjármálamörkuðum til skamms tíma litið.

Samkvæmt CNN money, telur Kevin Logan, yfirhagfræðingur HSBC í Bandaríkjunum að Trump muni lækka skatta og auka ríkisútgjöld, sérstaklega til þess að byggja upp innviði. Aðrir greiningaraðilar meta stöðuna á sama hátt og spá áframhaldandi uppgangi.

Bjartsýnin vekur engu að síður athygli, sérstaklega í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hagfræðingar og aðrir greiningaraðilar voru með fyrir kosningar. Spáin var þá svartsýnni, flestir spáðu miklum lækkunum, á meðan sumir spáðu ófyrirséðu hruni á heimsmörkuðum.

Lítið hefur ræst úr þessum heimsendaspám og telja margir að sigurræða hans hafi spilað stórt hlutverk í að róa aðila á markaði niður. Þeir svartsýni bíða engu að síður eftir því að maðurinn setjist í hvíta húsið og byrji að slá um sig.

Fjármálamarkaðir vestanhafs hafa nú aldrei verið hærra skrifaðir, og er mikil örvænting eftir hugsanlegum breytingum á lagaramma Bandaríkjanna. Dow Jones vísitalan hefur hækkað um allt að 5% í þessum mánuði, en hafði lækkað í þrjá mánuði fyrir það.

Öllu þarf þó að taka með fyrirvara, enda hefur Trump talað fyrir því að rifta verslunarsamningum við ýmis ríki. Slíkar aðgerðir gætu þá leitt til vandræða innanlands, en Bandarísk fyrirtæki njóta góðs af flest öllum þessum samningum.