Hlutabréf í bandaríska fyrirtækinu Apple tóku stökk í morgun og hækkuðu um tæplega 2% eftir að upp komst að fjárfestirinn Warren Buffet hefði verið að að kaupa hlutabréf í félaginu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Þann 31. mars sl. hafði Buffet keypt 9,8 milljónir hluti í félaginu, að verðmæti 1,07 milljarð Bandaríkjadala. Þessi fjöldi hluta gerir Buffet að 56. stærsta eiganda Apple.

Þessar fréttir koma á sama tíma og tilkynnt var að Buffet væri orðaður við fjárfestahóp sem vildi kaupa internetfyrirtækið Yahoo. Buffett er þekktur fyrir að hafa lýst því yfir að ekki ætti að fjárfesta í fyrirtækjum hverra rekstur maður skildi ekki. Fyrirtæki hans, Berkshire Hathaway, hefur að mestu látið tæknigeirann vera - fyrir utan hluti félagsins í IBM - en á síðasta hluthafafundi játaði Warren að Berkshire hefði verið hægfara hvað varðar tækniiðnaðinn.