Á síðasta viðskiptadegi ársins 2017 sigraði Warren Buffet, einn frægasti fjárfestir heims, veðmál sem upphaflega var upp á einn milljarð Bandaríkjadala sem hann gerði við sjóðsfyrirtækið Protégé Partners.

Árið 2007 veðjaði fjárfestirinn Warren Buffet 1 milljón Bandaríkjadala við sjóðsfyrirtækið um að á tíu árum myndi fjárfesting í vísitölusjóði skila sér betur heldur en karfa vogunarsjóða á vegum Protégé Partners. Þegar bjallan hringdi í lok dagsins sýndi það sig svart á hvítu að Buffet, stjórnarformaður Berkshire Hathaway, hefur enn einu sinni haft rétt fyrir sér.

Frá því að veðmálið hófst hefur sjóður hans sem fjárfesti í S&P 500 vísitölusjóði ávaxtast um 7,1% á hverju ári meðan karfa Protégé Partners skilaði að meðaltali 2,2% ávöxtun. Til að byrja með settu bæði Buffet og Protégé Partners um 320 þúsund dali hvor í skuldabréf sem ætlunin var að myndu ná um 1 milljón dala virði á 10 ára gildistíma veðmálsins.

Síðar ákváðu fjárfestarnir að auka veðmálið því ávöxtun skuldabréfanna reyndist hraðari en búist var við og samþykktu þeir árið 2012 að kaupa viðbótar 11.200 hluti í Berkshire fyrir 89.70 dali í lok ársins 2012. Síðan þá hafa hlutirnir aukist um 121% í verði og er heildarverðmæti þessara hluta í dag því að andvirði 2,22 milljón dali, eða sem nemur 229 milljónum íslenskra króna.

Afraksturinn rennur til góðgerðarmálefnis sem Buffet valdi, sem heitir Girls Inc. og er staðsett í Omaha. Félagið er hluti af alþjóðasamtökum sem halda úti starfi fyrir stúlkur á aldrinum 5 til 18 ára á sumrin og eftir skóla, en árlegur heildarrekstrarkostnaður samtakanna er um 2,8 milljón dalir að því er WSJ greinir frá.