Í fjárfestingaheiminum er margmilljarðamæringurinn Warren Buffett þekktur fyrir að vera einn dyggasti stuðningsmaður Benjamins Graham – mannsins sem skrifaði bókina Security Analysis og The Intelligent Investor – og hefur ætíð haldið uppi gildum grunngreiningarstefnunnar svokölluðu í fjárfestingum. Buffett er metinn á um 63,3 milljarða Bandaríkjadala eða tæplega átta þúsund milljarða íslenskra króna. Hann á og rekur fjárfestingarfyrirtækið Berkshire Hathaway ásamt félaga sínum, Charlie Munger.

Það hefur lengi verið skoðun Buffett að vogunarsjóðir sem fylgja „2/20“ greiðslukerfinu séu ekki fjárfestingarinnar virði fyrir hinn almenna fjárfesti. Greiðslukerfið umrædda virkar þannig að vogunarsjóðurinn tekur 2% fjárumsýsluþóknun og 20% af öllum hagnaði sem hlýst af sjóðnum. Það er skoðun Buffetts að þóknanir af greiðslukerfinu séu allt of háar og að þær verði einfaldlega til þess að fjárfestirinn sem setur fé sitt í slíkan vogunarsjóð muni sjá verulega á ávöxtun fjár síns með tíð og tíma.

Veðjaði við vogunarsjóð

Warren ákvað því árið 2008 að gera veðmál við vogunarsjóðinn Protégé Partners LLC., í þeim tilgangi að sanna fyrir heiminum að skárra sé fyrir hinn almenna fjárfesti að setja fé sitt einfaldlega í vísitölusjóð en að fjárfesta í vogunarsjóðum. Veðmálið var til tíu ára og hver sá sem sigraði fengi að ráða því í hvaða góðgerðasamtök ein milljón Bandaríkjadala færu. Veðmálið stendur yfir til 31. desember árið 2017 en þá mun sá sem er með hærri ávöxtunina yfir árin tíu vinna veðmálið.

Eins og staðan er í dag hefur vísitölusjóður Buffetts tekið langt fram úr vogunarsjóðunum. Standard & Poor’s vísitalan hefur hækkað um 65,67% á þeim átta árum sem eru liðin meðan ávöxtun vogunarsjóðanna er um 21,87%. Ávöxtun Buffetts í vísitölusjóðnum er því meira en þrefalt meiri en ávöxtun þess sem hefði fjárfest í vogunarsjóðunum og greitt þau háu þóknunargjöld sem vogunarsjóðirnir taka venjulega til sín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.