Karl Wernersson og bróðir hans Steingrímur, auk Guðmundar Ólasonar, voru dæmdir til fangelsisvistar í Hæstarétti í dag. Karl hlaut 3,5 ára dóm, Steingrímur þriggja ára og Guðmundur tveggja. Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar. Þannig var sýknudómi Héraðsdóms frá 2014 snúið við.

Þá fengu endurskoðendurnir Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Guðmundsson skilorðsbundinn dóm til tveggja ára auk þess sem þau voru svipt endurskoðendaréttindum sínum í sex mánuði. Þau höfðu þá einnig verið sýknuð fyrir Héraðsdómi, en þriðji endurskoðandi var ekki sakfelldur.

Dómsmálið snerist um að úr Milestone höfðu runnið greiðslur til Ingunnar Wernersdóttur, sem er systir Karls og Steingríms, árin 2006 og 2007. Greiðslurnar numu um 4,8 milljörðum króna. Saksóknari taldi að með þessum hætti hefðu Guðmundur, Karl og Steingrímur losað um eignir sínar í Milestone.

Þremenningarnir voru sakfelldir fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína hjá Milestone auk þess sem félagið var ekki talið hafa verið nægilega varið fyrir fjártjóni vegna slíkra ráðstafana. Þeir voru því dæmdir fyrir umboðssvik. Einnig voru þeir sakfelldir fyrir meiriháttar brot á bókhaldslögum og lögum um ársreikninga.