Matvælakeðjan Whole Foods mun segja upp 1.500 starfsmönnum á næstu átta vikum. Ástæðan fyrir uppsögnunum er hagræðing í rekstri og fjárfesting í tækninýjungum en fyrirtækið hefur þurft að mæta mun harðari samkeppni á síðustu árum en áður fyrr. Með þessum aðgerðum er fyrirtækið að segja upp 1,6% af vinnuafli sínu. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Walter Robb, annar framkvæmdastjóra Whole Foods, sagði að ákvörðunin hefði verið gríðarlega erfið en að fyrirtækið sé ákveðið í því að veita þeim starfsmönnum sem sagt verður upp sem mesta hjálp. Meðal annars mun það gefa starfsmönnunum kost á því að sækja um önnur störf innan fyrirtækisins. Whole Foods stefnir á að opna um hundrað nýjar verslanir á næsta ári.

Hlutabréfaverð Whole Foods féll um 0,7% við fréttirnar og er nú um 30,88 dollarar á hlut. Hlutabréfaverð fyrirtækisins hefur fallið um 18% á þessu ári.