Wizz bætir við sig ferðum til Íslands Ungverska flugfélagið Wizz air, sem er að stærstu hluta í eigu Indigo Partners, t ilkynnti fyrri í dag að það myndi bæta við flugleið á milli Keflavíkurflugvallar og Kraká í Póllandi. Með því sé það fyrsta erlenda flugfélagið til að vera með áætlunarflug frá tíu eða fleiri áfangastöðum til og frá Íslandi.

Í kvöld var svo greint frá því að Indigo Partners hafi slitið viðræðum sínum við Wow air. Icelandair og Wow air hafa í kjölfarið hafið viðræður, í samráði við stjórnvöld, sem stefnt er að því að fá niðurstöðu í ekki seinna en á mánudaginn.

Fyrsta áætlunarflug Wizz air frá Keflavíkurflugvelli hófst í júní 2015 til Gdansk í Póllandi. Síðan þá hefur Wizz air bætt við áætlunarflugi á milli Keflavíkur og borganna Katowice, Varsjár og Wroclaw í Póllandi. Auk þess flýgur Wizz air á milli Keflavíkur og Búdapest, Luton, Riga, Vínarborgar og Vilnius.

Rekstrarkostnaður Wizz air, sem er með höfuðstöðvar í Búdapest, er með því lægst sem þekkist í Evrópu. Samkvæmt fjárfestakynningu sem Wow air vann fyrir skuldabréfaútboð sitt sem lauk í september á síðasta ári var kostnaður á hvern framboðin sætiskílómetra 3,6 sent hjá Wizz air en 4,8 sent hjá Wow air árið 2017. Þá nam launakostnaður Wizz air 7% af tekjum í fyrra en var 34,2% hjá Icelandair Group og 21% hjá SAS, samkvæmt nýlegri greiningu Capacent.