Tugir þúsunda leggja árlega land undir fót til þess að sameinast í Omaha, Nebraska. Í raun má segja að um einhvers konar pílagrímsferð sé að ræða. Mörgum myndi ef til vill finnast þessi pílagrímsferð sérkennileg, þar sem fólk er að flykkjast á aðalfund Berkshire Hathaway til þess að hlusta á predikanir milljarðamæringanna Warrens Buffett og Charlie Munger. Aðalfundurinn hefur gjarnan verið kallaður Woodstock kapítalistans. Fjárfestingar eru þó ekki endilega eina viðfangsefnið, enda eru Buffett og Munger hoknir af reynslu og því lauma þeir gjarnan lífslexíum inn í ræður og svör.

Góðir hlutir gerast hægt

Buffett fór að fjárfesta í Berkshire Hathaway snemma á sjöunda áratug síðustu aldar og tók félagið svo yfir um miðjan áratuginn. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, en hægt og rólega fór hann að draga úr textílframleiðslunni og breytti félaginu í farsælt fjárfestingarfélag. Þó að Buffett hafi snemma verið farinn að sýna hæfileika á sviði fjármála tók það talsverðan tíma að byggja upp það orðspor sem hann hefur í dag.

Árið 1981 sóttu til að mynda einungis 12 hluthafar aðalfund félagsins. Árið 1984 skrifaði hann þó nokkur orð um aðalfundinn í árlegu bréfi til fjárfesta og í kjölfarið sóttu 250 af 3.000 hluthöfum félagsins fundinn. Berkshire Hathaway er í dag með ríflega 242 milljarða dala í veltu og árið 2015 sóttu nær 44.000 manns aðalfundinn. Bréf Buffetts eru meðal mest lesnu skrifa í fjármálaheiminum, en þau gefa líka vísbendingu um helstu umræðuefni hvers aðalfundar.

Hvernig kemst þú?

Þeir sem vilja sækja aðalfundinn þurfa helst að vera hluthafar. Það skiptir þó ekki máli hvort viðkomandi sé A eða B hluthafi. Þeir sem fá ársreikninginn inn um póstlúguna geta fyllt út eyðublað og sent það aftur til Omaha. Viðkomandi ætti svo að fá allt að fjóra aðgangsmiða í pósti. Aðrir hluthafar ættu að senda póst á miðlarann sinn. Þeir sem vilja ekki kaupa hlut, en vilja ólmir fara, geta reynt að kaupa aðgangsmiða á síðum á borð við ebay. Það er þó ekki mælt með því.

Þó svo að viðburðurinn sé yfirleitt fyrstu helgina í maí, er mælt með því að þeir sem hyggist mæta, bóki flug og gistingu með góðum fyrirvara. Oft eru hótel orðin fullbókuð hálfu ári fyrir fundinn. Auk þess ættu áhugasamir að hafa í huga að ódýrara er að fljúga til Kansas City.