*

mánudagur, 23. október 2017
Innlent 13. september 2012 11:02

WOW air bætir við þremur áfangastöðum næsta sumar

Munu hefja flug til Amsterdam, Mílanó og Düsseldorf næsta sumar þegar það bætir við einni vél til viðbótar í flotann.

Ritstjórn
Sigurjón Ragnar

Flugfélagið WOW air ætlar bjóða upp á aukna tíðni í sumaráætlun sinni og þá sérstaklega ferðir til og frá London og Kaupmannahöfn. Flogið verður átta sinnum í viku til London og sex sinnum í viku til Kaupmannahafnar. WOW air hefur einnig ákveðið að hefja áætlunarflug til þriggja nýrra áfangastaða á næsta ári en félagið mun fljúga til Amsterdam, Mílanó og Düsseldorf í sumaráætlun sinni eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félaginu. 

Flugvélum í flota WOW air mun fjölga úr einni yfir í þrjár en félagið er að ganga frá leigu á þremur Airbus A320 vélum sem verða með auknu sætabili.  Með fjölgun í flotanum er gert ráð fyrir að sætaframboð félagsins muni vera um 280 þúsund árið 2013 eða tvöfaldast milli ára.

„Stefna félagsins er að bjóða upp á ódýrstu fargjöldin á markaðnum  og auka ferðamannastraum til Íslands.  Við höfum bætt við þremur nýjum áfangastöðum; Amsterdam, Mílanó og Düsseldorf  sem við teljum að sé góð viðbót við þá áfangastaði sem við fljúgum til nú þegar og enn betri þjónusta við farþega okkar.  Mig langar til að þakka fyrir þær frábæru viðtökur í sumar sem við höfum fengið frá okkar farþegum og samstarfsaðilum. Þessi góðu viðbrögð hvetja okkur til áframhaldandi vaxtar. Það er ljóst að við munum halda áfram að bjóða upp á lægstu verðin til og frá Íslandi með bros á vör og ég hlakka til áframhaldandi uppbyggingar með okkar frábæra starfsfólki" segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air.

Í vetur mun WOW air fljúga til Berlínar, London , Alicante og um jólin verður boðið upp á flug til Kaupmannahafnar, Varsjár og Kaunas. Einnig verður flug til Salzburg yfir skíðatímabilið frá desember fram til mars. Næsta sumar mun WOW air fljúga til Kaupmannahafnar, London, París, Lyon, Alicante, Zurich, Stuttgart, Berlínar, Kaunas, Varsjár, Amsterdam, Mílanó og Düsseldorf. 

 

Stikkorð: WOW air