Það ríkti mikil eftirvænting í bandarísku borginni Pittsburgh þegar WOW air tilkynnti komu sína til borgarinnar í lok árs 2016. „Við erum mjög spennt fyrir því að bjóða WOW velkomið til Pittsburgh og þar með fá beint flug yfir hafið allan ársins hring,” hafði Túristi þá eftir Tom Loftus, talsmanni ferðamálaráðs Pittsburgh. Staðan var nefnilega sú að þrátt fyrir mikinn uppgang í borginni þá takmarkaðist flug til Evrópu við sumarferðir til Parísar og Frankfurt.

Jómfrúarferð WOW til Pittsburgh var svo farin í júní í fyrra og í boði voru fjórar ferðir í viku. Þá rúmu sex mánuði sem WOW air flug til Pittsburgh í fyrra þá flutti félagið samtals 41.095 farþega til og frá borginni. Að jafnaði var 75,5 prósent sætanna skipuð farþegum samkvæmt útreikningum Túrista sem byggja á upplýsingum frá flugmálayfirvöldum vestanhafs.

Allar götur frá því að WOW bætti Pittsburgh við leiðakerfi sitt hefur félagið verið eitt um heilsárs Evrópuflug en í gær boðaði British Airways komu sína til borgarinnar. Líkt og WOW ætlar breska félagið að fljúga til borgarinnar fjórum sinnum í viku frá Heathrow flugvelli við London. Í bresku höfuðborginni er Gatwick flugvöllur heimahöfn WOW air en félagið bætti reyndar við sumarflugi til Stansted í ár.