WOW air hefur í dag sölu á flugi til Bristol en flug þangað hefst 13. maí á næsta ári.

Flogið verður þrisvar sinnum í viku; á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum, allan ársins hring.

Bristol er annar áfangastaður WOW air í Bretlandi en flugfélagið hefur frá upphafi boðið upp á flug til London allan ársins hring.

„Við erum afskaplega ánægð með að WOW air hafi valið Bristol flugvöll sem sinn annan flugvöll á Bretlandi. Við erum einnig afar spennt að taka á móti Íslendingum til suðvesturhluta Bretlands,“ segir Robert Sinclair, forstjóri Bristol flugvallar.

Bristol flugvöllur þjónar suðvestur Bretlandi en tæplega 6,7 milljónir farþega fóru um flugvöllinn árið 2015 og er hann því sá níundi stærsti á landinu.