Wow Air hefur ákveðið að kæra til Hæstaréttar þá niðurstöðu héraðsdóms að vísa frá dómsmáli félagsins sem höfðað var vegna úthlutunar afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Hæstiréttur hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að taka beri þetta sama mál til efnismeðferðar og að Wow Air eigi ekki von á öðru en að Hæstiréttur komist aftur að sömu niðurstöðu.

Í tilkynningunni segir að málið snúist um réttmæti þess að markaðsráðandi fyrirtæki geti setið eitt um ákveðna afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli sem eru nauðsynlegir þeim sem vilja standa í samkeppni í flugrekstri til og frá landinu.

Þá segir í tilkynningunni að í ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins hafi komið fram að samkeppnisyfirvöldum EES-ríkis sé heimilt að beina fyrirmælum til þeirra fyrirtækja sem hlut eiga að máli ef samkeppnisástæður mæla með því. Það sé því heimilt að mati EFTA dómstólsins að flytja afgreiðslutíma á milli flugrekenda á grundvelli samkeppnislöggjafar.

Að lokum segir að málið sé liður í þeirri vegferð Wow Air að koma á virkri samkeppni í millilandaflugi til og frá Íslandi, til frambúðar. Til þess að það geti gerst þurfi að riðja úr vegi rótgrónum aðgangshindrunum. Úthlutun afgreiðslutíma sé ein slík hindrun.