WOW air hefur keypt helmingshlut í ferðaskrifstofunni Gaman Ferðum en þessi fyrirtæki hafa unnið saman frá stofnun WOW air. Hjá Gaman Ferðum starfa fjórir starfsmenn en ferðaskrifstofan var stofnuð 2012 af Þóri Bæring Ólafssyni og Braga Hinriki Magnússyni. Nýlega bættust við Berglind Snæland og Ingibjörg Eysteinsdóttir. Þór Bæring Ólafsson verður áfram framkvæmdastjóri Gaman Ferða og Bragi Hinrik Magnússon áfram forstöðumaður hópadeildar. Berglind Snæland er nýr fjármálastjóri Gaman Ferða og forstöðumaður sérferða. Ingibjörg Eysteinsdóttir mun svo stýra nýrri deild hjá fyrirtækinu en hún verður forstöðumaður sólarlandadeildar Gaman Ferða.

Fram kemur í tilkynningu að Þór Bæring Ólafsson og Bragi Hinrik Magnússon hafa starfað í ferðageiranum síðan 2003 en þá stofnuðu þeir ferðaskrifstofuna Markmenn. Árið 2005 keypti svo Iceland Express ferðaskrifstofuna Markmenn og í kjölfarið breyttist nafnið í Express Ferðir. Þegar WOW air var stofnað í lok árs 2011 ákváðu þeir Þór og Bragi svo að það væri kominn tími á að opna nýja ferðaskrifstofu sem myndi bjóða upp á skemmtilegar sérferðir fyrir ferðaglaða Íslendinga.

Í dag eru í boði hjá Gaman Ferðum sólarferðir, fótboltaferðir, tónleikaferðir, borgarferðir, golfferðir, skíðaferðir, æfingaferðir fyrir íþróttafélög, íþróttamót, ýmsar sérferðir og svo auðvitað hópferðir fyrir allar gerðir af hópum. Markmið Gaman Ferða er að bjóða upp á góða og persónulega þjónustu.

„Þór og Bragi hafa byggt upp mjög flott félag á skömmum tíma og hefur samstarf okkar við Gaman Ferðir verið mjög gott frá fyrsta degi. Við sjáum margvísleg tækifæri í því að vinna enn nánar með Gaman ferðum næstu árin í að bjóða fjölbreyttar pakkaferðir á hagstæðustu kjörunum sem völ er á“ segir Skúli Mogensen forstjóri WOW air í tilkynningu.